Stígvél

Heim

Dagur 1
Dagur 2
Dagur 3

Indíánar

Kort

Dagur 4
Dagur 5
Dagur 6

Indíánar

Date: Thu, 15 Jul 2004
From: Árni
To: Sigga
Subject: Á indíánaslóðum

Hæ Sigga, hér er fróðleikur um indíána sem þú hefur kannski áhuga á.

Ef þú skoðar kortið á heimasíðunni okkar, þá eru brúnir flekkir indíánasvæði. Saga þeirra er mjög áhugaverð en sorglega lítið lifir eftir af menningu þeirra. Þó eru ekki nema örfáar kynslóðir frá því evrópskir innflytjendur hófu samskipti við þá að ráði, sem er miklu seinna en við austurströndina.

Síðan Evrópubúar fóru að flytjast til N-Ameríku hefur indíánum fækkað um meira en helming á hverri öld, aðallega vegna sjúkdóma á borð við bólusótt og mislinga. Þessir sjúkdómar frá Evrópu og Afríku dreifðust hraðar en landnemarnir, sem mættu oft syrgjandi eða deyjandi samfélögum. Eftir að bandarísku borgarastyrjöldinni lauk 1865 var hernum beitt óspart gegn indíánum og þeim smalað á sífellt minnkandi afmörkuð svæði, stundum langt frá upprunalegum heimkynnum. Það var útilokað að indíánar gætu sigrað í þessari togstreitu um gróið land, svo þeir sem kusu að halda lífi reyndu að láta lítið fara fyrir sér og versla eitthvað af þeim nýju tólum sem landnemarnir áttu.

Þessi saga skýrir hvers vegna indíánar í dag eru oft mjög fátækir og skortir stundum trú á sjálfan sig. Atvinnuleysi er mikið og margir hafa vanist því að lifa á því litla sem að þeim er rétt, en þeir peningar koma frá ríkinu og spilavítum sem flest indíánasvæði reka. Stundum eru spilavíti eina vísbendingin um að maður sé staddur á indíánasvæði, því að öðru leyti er allt eins og í öðrum fátækum bæjarfélögum. Einstaka sinnum hef ég þó séð félagsheimili þar sem verið er að halda við tungumálinu og hefðum.

Við skulum alla vega vona að indíánarnir sem við hittum hafi það sæmilegt, en þau eru fjögur svæðin sem verða á vegi okkar. Norðan við Electric City er (1) Colville svæðið, þar sem smalað var saman ýmsum frekar fámennum ættbálkum úr nágrenninu, en við munum varla skoða það svæði að nokkru ráði. Handan við Klettafjöllin í Montana eru það svo (2) Svartfetar [Blackfeet] sem voru á sínum tíma harðskeyttir, bæði gagnvart gömlum og nýjum nágrönnum, en hafa það frekar skítt í dag. Mig grunar að hin tvö svæðin séu áhugaverðari heim að sækja. Planið er að gista hjá (3) Flathöfðum [Flathead], en á þeirra landi lifa enn villtir vísundar. Loks eru það svo (4) Gat-í-nefi [Nez Perce] í Idaho. Nafngiftirnar eru yfirleitt byggðar á misskilningi landnemanna, t.d. kalla Nez Perce indíánar sig Nimiipuu.

Svæðin sem við heimsækjum eiga það sameiginlegt að vera hrjóstrug og á hverju þeirra búa ekki nema 3-7 þúsund indíánar. Um aldamótin 1900 bjuggu 250 þúsund indíánar í Bandaríkjunum og 100 þúsund í Kanada sem er veruleg fækkun frá því öld fyrr, þegar þeir voru 1-2 milljónir. Í dag búa flestir indíánar í SV-hluta Bandaríkjanna, en sumir sem skrá sig eru nær eingöngu af evrópsku bergi brotnir, kannski í leit að sálrænni rótfestu eða mánaðarlegum tékka frá spilavítunum.

Það má finna margar ágætar vefsíður um indíána á vefnum. Ein þeirra, www.pbs.org/lewisandclark/native, er um þá indíána sem Lewis og Clark hittu á þessum slóðum, en þeir leiddu fyrsta leiðangur hvítra manna þvert yfir Bandaríkin 1804-6. Aðrir höfðu þá farið þvert yfir Mexíkó og Kanada, en Lewis og Clark leiðangurinn skildi mun meira eftir sig, enda fjölbreytt náttúra og menning á leið þeirra. Það vill reyndar þannig til að við fetum í fótspor þeirra frá Missoula til Astoria, en nágrannabæirnir Lewiston og Clarkston eru auðsjáanlega nefndir eftir þeim félögum.

Vá, svakalega er þetta orðið langt bréf. Kannski við notum glefsur úr því í ferðadagbókina á vefnum síðar meir.

Verðum í sambandi,
Árni